Saga Tíbet Spaniel hundsins
Tíbet spaniel hundurinn, eða Jemtse aspo sem hans tibetska nafn er menningararfur frá hinu dulúðlega, forna og frumstæða Tíbet. Uppruni kynsins er nokkuð óljós, en tegundin hefur verið í Tíbet frá um 300 fyrir Krist.Tíbet spanielhundar voru fyrst þekktir sem heimilishundar almúgafólks, en síðar meir í klaustrum og musterum, þar sem þeir voru virtir af táknrænum ástæðum trúar og goðsagnar. Þeir fengu viðurnefnið,, litla ljónið? og þóttu minna á ljónið sem Búdda tamdi og fylgdi honum af trúmennsku hvert sem hann fór. Það var trú manna, að mikil gæfa fylgdi þessum litlu hundum, þeir voru aldrei seldir, heldur fengu þjóðhöfðingjar og trúarleiðtogar þá gjarnan að gjöf í vináttu og virðingarskyni. Í klaustrum lágu þeir gjarnan uppi á klaustursmúrum og gerðu viðvart, ef eitthvað óvenjulegt bar að garði, enda taldir hafa óvenju góða sjón og athygli. Tíbet spanielhundar eru sérlega trúfastir og húsbóndahollir og gleyma aldrei sínum velgjörðarmönnum, að sama skapi minnugir sé þeim misboðið. Yfir þeim hvílir austurlensk tign og virðuleiki, þeir eru rólegir og yfirvegaðir, en geta líka verið ærslafullir og uppátektarsamir sé gallinn á þeim. Það var í byrjun maí 1993 sem fyrstu Tíbet hundarnir komu til landsins þeir komu frá Svíþjóð, þetta voru þau Nalinas Mon-Za-Can eða Sindý (f. 2/4 1989) , Nalinas Nooni eða Nonni (f. 6/10 1992) og Tíbetmans Justice at Last eða Þorri (f.5/3 1993) . Næstu hundar sem komu til landsins voru svo Freyja og Fjóla sem komu í apríl 1994. Fyrstu Tíbet hvolparnir komu í heiminn 19 júní 1994 og voru þeir undan Sindý og Þorra , voru þetta 2 hundar , þeir Bitru-Míló og Bitru-Dalí, og ein tík , Bitru-Ísabella. Heildarfjöldi skráðra hunda á Íslandi (innfl. og fæddir hér á landi frá upphafi er 83) heildarfjöldi skráðra hunda nú er 72. Tíbet spanieldeildin var svo stofnuð 19.nóv.1995.