Ársskýrsla Tíbet Spaniel deildar HRFÍ starfsárið 2011-2012
Meginhlutverk ræktunarstjórnar er að standa vörð um ræktunarmarkmið og heilbrigði tegundarinnar.
Þegar ný stjórn tók til starfa ákváðu stjórnarmenn að hafa samband við deildarmeðlimi og fá upplýsingar um hundana þeirra, heilsufar og fleira. Við hringdum í alla sem við náðum í og skrifuðum niður þær athugasemdir sem við fengum hjá viðkomandi aðilum um hunda þeirra. Athugasemdirnar eru geymdar í „Dropboxi“ sem sett var upp. Einnig var póstlistinn yfirfærður með nýjum upplýsingum sem við fengum í samtölum við eigendur.
Ræktunarstjórn fundaði 5 sinnum ásamt því að nota stjórnarspjall sem stofnað var á Facebook þar sem rædd voru og ákveðin hin ýmsu mál sem komu upp á milli funda. Við (Auður, Dagný og Kolbrún) sóttum alla fulltrúaráðsfundi sem HRFÍ boðaði til og voru tveir stjórnarmenn sem sátu þá í hvert skipti.
Augnskoðun
Augnskoðanir voru 4 á starfsárinu. Alls mættu 14 Tíbet spaniel hundar í skoðun og þar af tveir í fyrsta sinn. Þrjú tilfelli af arfgengum augnsjúkdómum greindust í tveimur hundum. Annar var með bæði RD (Retinal dysplasi) og Distichiasis og var sett í athugasemd að það mætti rækta með hreinum á móti. Hinn greindist með Distichiasis (auka augnhár) og fékk sömu athugasemd að það mætti rækta með hreinum á móti.
Sem betur fer hefur PRA ekki greinst í neinum Tíbet spaniel á Íslandi en mjög mikilvægt er að skoða sem flesta hunda til að sjá hvernig stofninn stendur svo að hægt sé að grípa til ráðstafanna ef þessi sjúkdómur kemur upp. Þess vegna verðum við öll og sérstaklega ræktendur þessarar tegundar að vera duglegir að uppfræða hvolpeigendur sína um mikilvægi þess að láta augnskoða hundana sína jafnvel þó ekki sé áætlað að rækta undan þeim. Eins og flestir vita verða undaneldisdýr að vera með gild aungvottorð ef rækta á undan þeim, annars er ekki hægt að ættbókarfæra gotið.
Ræktun
Kröfur ræktunarstjórnar til undaneldis eru þær að ræktunardýrin séu ræktunardæmd á sýningum HRFÍ eða öðrum viðurkenndum af HRFÍ með lágmarkseinkunnina „very good“. Einnig verða undaneldisdýrin að vera með gild augnskoðunarvottorð (viðurkennd af HRFÍ).
Ef ræktendur óska eftir ráðleggingum um val á undaneldishundum frá ræktunarstjórn þarf skrifleg beiðni að berast með um 2 mánaða fyrirvara til að öruggt sé að hún sé tekin fyrir og afgreidd í tæka tíð fyrir pörun.
Við viljum biðja ræktendur að hvetja hvolpeigendur sína til að mæta með hundana sína á sýningar til að fá ræktunardóm á þá, sérstaklega sem fullorðna. Ræktunarstjórn vantar alltaf fleiri rakka til að geta mælt með til undaneldis.
Fjölgun
Á starfsárinu hafa þrjú got með 10 hvolpum litið dagsins ljós sem er góð fjölgun í okkar stofni miðað við undanfarin ár.
C.I.B. ISCh Toyway Ama-Ry-Lix „Tíbrá“ og C.I.B. ISCh Tíbráar Tinda Un Bel Figo „Fígó“ eignuðust 4 hvolpa, 2 tíkur og 2 rakka 30. ágúst 2011. Ræktandi er Auður Valgeirsdóttir, Tíbráar Tinda-ræktun.
Frostrósar Freyja og ISCh Tíbráar Tinda Prayer Wheel Spinner „Rúbín“ eignuðust 3 hvolpa, 2 rakka og 1 tík þann 28. nóvember 2011. Ræktendur eru Jo Ann Önnudóttir og Brynjar Gunnarsson, Frostrósar-ræktun.
ISCh Perlu-Lindar Ísadóra og Toyway Tim-Bu „Timbú“ eignuðust 3 hvolpa, 2 tíkur og 1 rakka þann 5. febrúar 2012 (ættbækur hafa ekki verið gefnar út enn vegna aldurs hvolpanna). Ræktandi er Berglind Björk Jónsdóttir, Perlu-Lindar-ræktun.
Stjórn óskar ræktendum og eigendum til hamingju með hundana sína.
Einn aðili úr stjórninni, Dagný Egilsdóttir, sótti ræktunarnámskeið Hans Åke Sperne frá Svíþjóð á vegum HRFÍ. Nú hafa allir stjórnarmenn að einum undanskildum lokið ræktunarnámskeiði.
Sýningar
Fjórar sýningar fyrir allar tegundir voru haldnar á árinu 2011 þar sem okkar hundar gátu tekið þátt, þar af 2 alþjóðlegar og er fyrstu sýningu ársins 2012 lokið. Á febrúarsýningu voru 7 Tíbet spaniel skráðir, á júnísýningu voru 8 skráðir, í ágúst voru 7 skráðir, í nóvember voru 9 skráðir, í febrúar 2012 voru 9 skráðir þar af 4 hvolpar sem fengu allir heiðursverðlaun og endaði BOB hvolpurinn sem besti hvolpur dagsins í flokki 4-6 mánaða.
Þó gaman væri að sjá mun fleiri Tíbba á sýningunum er samt sem áður gaman að sjá hve vel okkar tegund hefur gengið á sýningunum og fengið frábæra dóma. Í viðtölum við dómara í Sámi, blaði HRFÍ, hafa dómarar mjög oft á orði gæði tegundarinnar okkar og að hundarnir séu á heimsmælikvarða. Oftar en ekki hafa þeir lent í verðlaunasætum í tegundahópi 9 sem er fjölmennasti tegundahópurinn á sýningum HRFÍ.
J.R.J. ehf. hefur gefið deildinni gjafabikara á sýningum ársins fyrir bæði BOB og BOS. Tíbráar Tinda-ræktun gaf bikara fyrir BOB og BOS hvolpa 4-6 mánaða á síðustu sýningu. Deildin færir þeim bestu þakkir fyrir.
Stigahæsti Tíbet spaniel ársins 2011 samkvæmt lista HRFÍ var ISCh Tíbráar Tinda Prayer Wheel Spinner „Rúbín“. Hann varð í 11. sæti á listanum yfir allar tegundir.
Eigandi er Kolbrún Jónsdóttir og ræktandi Auður Valgeirsdóttir.
Innilegar hamingjuóskir til eiganda og ræktanda
Nýir meistarar
Þrír Tíbet spaniel hundar hafa fengið staðfestingu frá HRFÍ um íslenskan meistaratitil á starfsárinu.
ISCh Tíbráar Tinda Monastery´s Guardian „Buddha“. Eigendur Auður Valgeirsdóttir og Rannveig Rúna Viggósdóttir. Ræktandi Auður Valgeirsdóttir.
ISCh Tíbráar Tinda Prayer Wheel Spinner „Rúbín“. Eigandi Kolbrún Jónsdóttir. Ræktandi Auður Valgeirsdóttir.
ISCh Móna. Eigandi Guðrún Helga Harðardóttir. Ræktandi Tina Marie Johnson.
Stjórn óskar eigendum og ræktendum til hamingju með meistarana.
Félagsstarf
Við notuðum tækifærið um leið og við hringdum í fólkið í deildinni og buðum fólki að koma á opið hús sem haldið var á Hundasnyrtistofunni Dekurdýrum undir stjórn Ástu Maríu Guðbergsdóttur hundasnyrtis. Hún fór yfir það með sýnikennslu hvernig best er að halda feldi hundsins og klóm við og einnig hvernig best er að snyrta hann og baða fyrir sýningar. Húsfyllir var og voru allir mjög ánægðir með framtakið.
Nokkrar göngur hafa verið á dagskrá en það verður að segjast eins og er að mæting hefur ekki verið með besta móti. Þrátt fyrir það hefur verið ákveðið að halda áfram að skipuleggja göngur og sjá hvort fólk komi ekki með Tíbbana sína með hækkandi sól. Við vonumst líka eftir að sjá nýju hvolpana og eigendur þeirra í göngunum á árinu enda hafa þeir mjög gott af því og góð umhverfisþjálfun fyrir þá að hitta aðra hunda. Göngustjórar hafa verið Dagný Egilsdóttir og Helga Kolbeinsdóttir.
Kynning - Sámur
Við höfum skrifað deildarfréttir í öll tölublöð Sáms til að leyfa fólki að fylgjast með því sem er að gerast hjá deildinni.
Deildin var með kynningarbás á einni af hundasýningum HRFÍ á árinu. Það gekk mjög illa að manna þann bás og var ákveðið í framhaldinu að vera frekar með á kynningum í Garðheimum. Við höfum tekið þátt í smáhundakynningum í Garðheimum og verið með hundana okkar þar til sýnis og kynningar. Það hefur verið mjög gaman og tekist mjög vel. Allir hundar og menn hafa verið til fyrirmyndar. Gaman væri að fá fleiri til að vera með okkur á næstu kynningu.
Við höfum haldið úti Facebook-síðu fyrir okkar tegund undir „Tibetan spaniel á Íslandi innan HRFÍ“. Þar höfum við sett inn allar fréttir og uppákomur sem tilheyra okkar tegund. Einnig höfum við sent út á póstlistann okkar það sem er á döfinni hjá okkur og félaginu okkar líka.
Heimasíða
Til stóð að Stefán Þórarinsson gerði og hefði umsjón með heimasíðu fyrir okkur en því miður varð ekkert af því vegna anna hjá honum.
Báðum við Helgu Kolbeinsdóttur um að gera góða síðu fyrir okkur og er hún í vinnslu og fer vonandi fljótlega í loftið. Helga ætlar líka að hafa umsjón með síðunni fyrir okkur.
Hér hefur verið fjallað um það helsta sem gerst hefur á starfsárinu.
Meginverkefni ræktunarstjónar er að standa vörð um andlegt og líkamlegt heilbrigði og ræktunarmarkmið Tíbet spaniel hunda. En það er ekki nóg að fimm manneskjur í stjórn séu allar að vilja gerðar. Við verðum öll að hafa metnað fyrir þessari frábæru tegund okkar með góðri kynningu á henni og metnaði í ræktun, öðruvísi tekst okkur ekki að ná markmiði okkar.
19. mars 2012
F.h. ræktunarstjórnar Tíbet spaniel deildar HRFÍ,
Auður Valgeirsdóttir, formaður.
Í ræktunarstjórn starfsárið 2011-2012 eru
Auður Valgeirsdóttir, formaður
Dagný Egilsdóttir, ritari
Guðrún Helga Harðardóttir, meðstjórnandi
Kolbrún Jónsdóttir, meðstjórnandi
Kristjana Ólafsdóttir, gjaldkeri